Fróðleikur
Hvað er núvitund?
Í stuttu máli er núvitund það að vera í núinu hverju sinni. Núvitund gengur út á það að vera meðvitaður um sjálfan sig, umhverfi sitt og líðan í amstri dagsins. Tileinkun núvitundar getur átt þátt í því að bæta líðan einstaklinga, bæði andlega og líkamlega. Einnig getur hún eflt jákvæðara hugarfar, mildi í eigin garð sem og annarra.
En núvitund þarf að æfa og þjálfa upp með ýmsum æfingum. Slíkar æfingar ganga út á það að vera í núinu, að beina athyglinni að núinu og því sem á sér stað í kringum okkur hverju sinni. Það getur reynst erfitt í fyrstu að tileinka sér núvitund, þá sérstaklega í nútímasamfélagi og hraðanum sem því fylgir.
Á næstu vikum mun ég vera dugleg við það að henda inn ýmsum æfingum í núvitund í Bolla dagsins. Ég hef tileinkað mér núvitund og vil að aðrir njóti góðs af.
Fylgist með Bolla dagsins í sumar!
Hið jákvæða / Hið neikvæða
Í huga okkar flest allra eru hið neikvæða – sem hér er táknað sem púki og hið jákvæða – sem táknað er sem engill, sífellt í bardaga við hvort annað. Hið jákvæða er með þér í liði, hvetur þig áfram og styður við bak þitt í öllu því sem þú tekur þér fyrir hendur. Það veit hvað er þér fyrir bestu og hvað þarf að gera til að láta drauma þína rætast. Hins vegar nýtur hið neikvæða þess að eyðileggja fyrir þér, draga úr þér og koma í veg fyrir að þú uppfyllir drauma þína. Það reynir í sífellu að telja þér trú um að þú sért ekki nógu góð/ur, þú getir ekki áorkað neitt og étur það allt sjálfsöryggi upp til agna.
Sem dæmi um þetta má taka þetta fjall fyrir – Ímyndum okkur að um sé að ræða
Esjuna og þig langar alla leið upp á topp. Hið jákvæða er að fara að leiða þig þangað
með því að styðja þig, stappa í þig stálinu og hvetja áfram þangað til að komið er á
toppinn þar sem útsýnið er ómótstæðilegt. Hið neikvæða mun hins vegar aðeins leiða
þig að rótum fjallsins, telja þér trú um að þú getir þetta ekki, þú ert ekki í góðu formi
og hálfgerður auli. Hið neikvæða mun því snúa þér við, ganga aftur að bílnum og keyra
beinustu leið heim! Markþjálfun gengur að miklu leyti út á það að koma okkur úr þessu neikvæða hugarfari sem því miður stjórnar okkur alltof oft og kemur í veg fyrir að við blómstrum í eigin lífi, og yfir í það jákvæða þar sem við komumst á toppinn í lífinu!
Markþjálfun virkar eins og púsluspil. Í hverjum tíma mætir markþeginn með nýjan bita í púsluspilið og smám saman verður til skýr og fín mynd!