Bolli dagsins
Núvitundaræfing - Skönnun líkamans
20.08.24
Nú er sumarið að enda og flestir að komast aftur í rútínu. Ég tel að allir geti notið góðs af því að stunda núvitundaræfingar í amstri dagsins og þá sérstaklega næstu mánuði. Æfingin sem hér verður kynnt finnst mér virka einstaklega vel fyrir mig þegar mikið er um keyrslu og stress í daglegu lífi.
Mikilvægt er að koma sér vel fyrir og í þeirri stöðu sem manni líður sem best í, en hægt er að gera æfinguna í bæði sitjandi og liggjandi stöðu. Ég mæli með því að setja sér tíma og stilla vekjaraklukku. Sniðugt er að byrja á þremur mínútum og hækka tímann hægt og rólega.
Þá er það æfingin sjálf...
Æfingin gengur í stuttu máli út á það að beina athyglinni að líkamanum og skynja hann. Hægt er að ímynda sér að skanni fari yfir líkamann eða að hann sé skoðaður með vasaljósi. Þú skannar líkamann og beinir athyglinni að því hvar þú finnur verki, þrýsting, streitu í vöðvum og svo framvegis. Ef hugurinn reikar er mikilvægt að beina honum aftur að líkamanum.
Gangi ykkur vel og njótið!
Núvitundaræfing - Umhverfið
25.07.24
Það eru kannski einhverjir sem muna eftir því að í byrjun sumars sagðist ég ætla vera dugleg við það að setja hér inn æfingar sem snúa að núvitund. Jæja, júlí er að klárast og ég hef alveg gleymt mér í rútínuleysinu. En ég er þó með fleiri æfingar til sem ég ætla að henda hingað inn á næstu vikum – Vonandi nýtur einhver góðs af!
Æfing dagsins er nánast þveröfug við þá æfingu sem ég henti hér inn síðast. Í þeirri æfingu áttuð þið að útiloka allar utanaðkomandi truflanir og einbeita ykkur einungis að eigin andardrætti. Fyrir þessa æfingu finnst mér best að koma mér fyrir úti í náttúrunni en ég hef sjálf notast mikið við þessa æfingu í ferðalögum sumarsins.
Æfingin er einföld...
Komdu þér fyrir þar sem þér líður vel og hafðu það notalegt – Jafnvel í tjaldstól með teppi og lokuð augu. Æfingin gengur út á það að hlusta eftir öllu því sem er að gerast í kringum þig, svo einfalt er það nú. En samt ekki, reyndu eins og þú getur að gefa hugsunum þínum ekki gaum og einblíndu einungis á þau hljóð sem eru í kringum þig.
Gangi þér vel og njóttu!
Núvitundaræfing - Andardráttur
12.06.24
Þegar ég var að byrja að tileinka mér núvitundaræfingar þótti mér best að beina athyglinni að andardrætti mínum. Það eru kannski sumir sem telja það auðvelt, en það er merkilegt hversu erfið æfingin er til þess að byrja með. Æfingin gengur semsagt út á það að einbeita sér að eigin andardrætti og ekki leyfa neinu öðru að komast að.
Mikilvægt er að koma sér í þægilega stöðu, sama hver hún er. Sumir vilja þó meina að best sé að koma sér vel fyrir á stól, hafa fætur í gólfi, vera beinn í baki og slaka á handleggjum. Ég er ekki endilega á sama máli og kem mér fyrir í þeirri stöðu sem mér líður best í hverju sinni, eins og til dæmis að liggja slök uppi í rúmi, í sófanum eða jafnvel liggjandi í baðkarinu.
Hægt er að setja sér tímamörk og best þótti mér að byrja á stuttum tíma í einu. Það getur verið þægilegt að stilla úr eða skeiðklukku í símanum. Þú gætir til dæmis byrjað á því að stilla skeiðklukkuna á eina mínútu til þess að byrja með og svo aukið tímann eftir því sem á við.
En að æfingunni sjálfri...
Þegar þú hefur komið þér vel fyrir gæti verið sniðugt að loka augunum og draga djúpt inn andann. Þú getur fyglst með hvernig þú dregur andann inn um nefið og út um munninn eða hvernig loftið fyllir lungun og tæmir þau svo, í raun hvað sem er svo lengi sem það er andardrátturinn sem þú einbeitir þér að.
Ef og þegar aðrar hugsanir eða truflanir verða á æfingunni, reyndu eftir bestu getu að snúa þér aftur að henni og loka á aðkomandi truflanir.
Gangi þér vel!
Að breyta neikvæðri hugsun/hugarfari
í jákvæða hugsun/hugarfar
16.05.24
Oft festumst við í því að hugsa neikvætt eða í neikvæðu hugarfari og berjum okkur sjálf ítrekað niður, efumst um okkur sjálf og gefumst upp án þess að reyna. Það er þó hægt að breyta þessu með því að tileinka sér jákvæðara hugarfar. Mikilvægt er að grípa þessar neikvæðu hugsanir þegar þær skjóta upp kollinum, stöðva þær í fæðingu og hugsa þær upp á nýtt.
Það getur reynst vel að snúa neikvæðum hugsunum og finna jákvæðu útgáfuna af þeim. Ég get næstum lofað þér því að þegar þú tileinkar þér þessar æfingar munt þú á endanum fara að snúa hugsunum við ómeðvitað og eiga í mun betri samskiptum við sjálfa/n þig!